Valmynd
Heimagerð hamborgarabrauð 8 stór brauðUppskrift
7 dl hveiti og 3 dl spelt + góður slatti af hveiti til að hnoða úr
4 dl volg mjólk
1 dl volgt vatn
1 bréf þurrger
1 1/2 msk agave sýróp
1/2 tsk salt
3 msk ólívuolía
Leiðbeiningar
Hitið mjólkina og vatnið varlega. Það má gera í örbylgjuofni. Vatnið á að vera rétt volgt, ekki heitt, þegar putta er dýft ofaní.

Hrærið geri, sírópi, olíu og salti saman við. Látið standa í 5 mínútur. Blandið þá saman við hveitið og hrærið vel saman.

Setjið deigið, sem á að vera svolítið blautt í sér, á þurran flöt ásamt góðum slatta af hveiti.

Hnoðið í 2-3 mínútur. Skiptið deginu í 8 bita og mótið í bollur. Setjið á ofnplötu, þrýstið aðeins á hverja bollu fyrir sig og leyfið bollunum síðan að hefast í a.m.k. 30 mínútur.

Ég penslaði brauðin svo með mjólk og dreifði sesamfræjum yfir þau. Brauðin eru svo bökuð í miðjum ofni við 200°C í um 15 mínútur. 
Um uppskriftina
Í gær var laugardagur og mig langaði að elda eitthvað æðislega gott í kvöldmat. Ég hafði rekist á uppskrift að rosalega girnilegum og hollum kjúklingaborgurum á GulurRauðurGrænn&salt um daginn og ákvað að nota tækifærið til að prófa hana. Eins og svo oft áður urðu nú samt dálitlar breytingar á uppskriftinni þegar ég var komin af stað en útkoman var alveg frábær. Við áttum ekki hamborgarabrauð svo ég byrjaði á að útbúa heimabökuð hamborgarabrauð sem voru ekkert í líkingu við hvítu þurru og bragðlausu hamborgarabrauðin sem maður fær út í búð. Uppskriftin kemur af vinotek.is þar sem er er hægt að finna ótrúlega skemmtilegar hugmyndir að alskyns hamborgurum og meðlæti með þeim.
Undirbúningstími: 40 mínútur
Eldunartími: 15 mínútur
Fyrir: 8

Uppruni uppskriftar: Matardgledi.com