Valmynd
Kjötbúðingur með kartöflustöppu og grænum baunum



Uppskrift
Kjötbúðingur (í plasti)
Kartöflustappa (í pakka)
Hálf dós af grænum baunum
Tómatsósa og/eða sinnep.
Leiðbeiningar
Hitið pönnu.
Nýtið tímann á meðan pannan er að hitna, og takið plastið utan af kjötbúðingnum, og skerið hann í sneiðar. Ef lítill tími er til stefnu er betra að hafa sneiðarnar í þykkara lagi, því þá eru færri sneiðar til að steikja.

Steikið sneiðarnar í nokkrar mínútur á hvorri hlið, uns þær verða ögn brenndar.

Á meðan búðingurinn er að steikjast, er gott að nota tímann og sjóða vatn fyrir kartöflustöppuna, og eins má á þessum tímapunkti opna baunadósina.

Þegar búðingurinn er tilbúinn, má setja hann á disk með stöppunni og baununum, og skreyta að vild með tómatsósu og/eða sinnepi, svona upp á lúkkið.

Gangið nú með diskinn að sjónvarpsstólnum og tyllið yður fyrir framan enska boltann, en gleymið ekki að taka einn ískaldan með, til að fullkomna máltíðina.
Um uppskriftina
Gott er að geyma kjötbúðinginn í kæliskáp fram að eldamennsku, en ekki ef hann tekur dýrmætt pláss frá bjórnum.

Kartöflustöppuna og baunadósina þarf ekki að geyma í kæli.
Undirbúningstími: 2 mínútur
Eldunartími: 10 til 15 mínútur
Fyrir: 2 til 3 máltíðir

Uppruni uppskriftar: Úr safni piparsveinsins