Valmynd
Uppskrift
2 dl mjólk – volg (ekki hærra en 37°C)
2 msk sykur
1 bréf þurrger (11 g)
600 g hveiti
1 tsk salt
2 tsk lyftiduft
4 msk olía
2 dl ab-mjólk eða 1 dós hrein jógúrt

Ofan á:
25 – 30 g smjör
1 – 2 hvítlauksrift – smátt söxuð
Ferskt kóriander og/eða steinselja (einnig má nota aðrar kryddjurtir eða krydd eins og shawarma eða garam masala)
1 msk gróft salt
Leiðbeiningar
Ger, sykur og volg mjólk sett saman í skál – látið standa í 15 mínútur.

Hveiti, salti, lyftidufti, olíu og jógúrt bætt saman við mjólkurblönduna og hnoðað saman – ath. betra að setja helminginn af hveitinu fyrst og bæta svo við jafnt og þétt á meðan deigið er hnoðað (verra ef deigið er of þurrt)

Rakur klútur settur yfir skálina og deigið látið hefast í 1 klukkustund.

Ofninn stilltur á 250°C (yfir- og undirhiti)
Deiginu skipt í 20 bita og kúlur mótaðar.

Hver bolla er mótuð með því að teygja og toga létt með höndunum.

Bollunum raðað í ofnskúffu með bökunarpappír – gott að láta þær standa í
u.þ.b. 15 mínútur áður en þær eru settar í ofninn.

Kryddjurtum og salti blandað saman á einn disk.  Bræddu smjöri og
hvítlauk (söxuðum eða pressuðum) blandað saman og sett á annan disk.

Brauðið bakað í 4 – 6 mínútur – frekar ofarlega í ofninum.

Mikilvægt að fylgjast vel með eftir 4 mínútur þar sem þær dökkna fljótt.

Efri hlutanum er dýpt ofan í hvítlaukssmjörið og síðan í  kryddblönduna. Setja má meira af kryddblöndunni á brauðið með fingrunum
(kemur ekki alltaf alveg nóg með því að bara dýfa).

Sett á ofngrind og smjörið látið setjast aðeins.

Best að borða bollurnar nýbakaðar en það má líka velgja þær með því að setja þær aðeins í volgan ofn (50° – 80°C) og bera þær svo fram.

Bollurnar eru langbestar nýbakaðar en líka fínar daginn eftir.
Um uppskriftina
Ég fékk uppskriftina hjá Drífu minni. Hún bakaði þessar naanbollur hér heima um daginn og slógu þær heldur betur í gegn. 

Ég er búin að baka þær nokkrum sinnum og finnst þær alltaf jafngóðar – ef þær klárast ekki með matnum þá eru þær búnar daginn eftir.
Undirbúningstími: 85 mín.
Eldunartími: 5 mín.
Fyrir: 20 bollur

Uppruni uppskriftar: Hanna.is