Valmynd
Nautahakksrúlla Með osti og spergilkáliUppskrift
600 gr nautahakk
1 msk nautakraftur
1 msk kartöflumjöl (2 msk husk fyrir LKL-vænan rétt)
1 tsk salt
pipar
1 egg
200-300 gr ferskt brokkolí, skorið smátt
½ dl steinselja, söxuð smátt
3-4 dl rifinn ostur
2-3 msk sojasósa
30 gr smjör, brætt
1-2 dl rjómi eða mjólk (fyrir LKL er rjómi bestur)
1 msk hveiti eða sósujafnari (sleppa fyrir LKL)
2 tsk rifsberjahlaup (sleppa fyrir LKL)
Leiðbeiningar
Ofninn er hitaður í 180 gráður. Nautahakki, nautakrafti, kartöflumjöli, salt, pipar og eggi hrært saman í skál.

Hakkið flatt út í ferning á smjörpappír. Gott er að leggja smjörpappír ofan á hakkið og fletja það svo út með kökukefli.

Brokkolí, steinselju og rifnum osti dreift yfir.

Með hjálp smjörpappírsins undir hakkkinu er því rúllað upp eins og rúllutertu.

Rúllan er færð yfir í eldfast mót. 

Bræddu smjöri og sojasósu blandað saman og helt yfir rúlluna.

Hitað í ofni í ca. 40-50 mínútur, fer allt eftir þykkt rúllunnar.

Þegar rúllan er elduð í gegn er hún tekin úr eldfasta mótinu og sett undir álpappír.

2-3 dl af vatni er hellt út í eldfasta mótið sem er sett aftur inn í ofninn og hann stilltur á grill.

Þegar vökvinn fer að sjóða eftir nokkrar mínútur er honum hellt yfir í pott og 1-2 dl af rjóma eða mjólk hellt út í.

Sósan er svo þykkt með hveitijafningi (smá vatn og hveiti hrist eða hrært saman) eða sósujafnara.

Fyrir LKL- væna sósu er best að nota rjóma og leyfa sósunni að malla dálítið, við það þykkist hún og þá þarf ekki sósujafnara.

Það er líka hægt að bæta ca. 2 msk af rjómaosti út í sósuna til að hjálpa til við þykkingu.

Rifsberjahlaupi er að lokum bætt út í sósuna (ekki fyrir LKL) og hún smökkuð til með salti og pipar.

Borið fram með til dæmis kartöflumús (blómkálshrísgrjón fyrir LKL, sjá efst), salati og rifsberjahlaupi.
Um uppskriftina
Ég gerði þennan ljúffenga og sniðuga hakkrétt fyrr í vikunni. Rúllan er skemmtileg tilbreyting frá því sem maður gerir venjulega úr nautahakki og öllum fjölskyldumeðlimum fannst hún ofboðslega góð. 

Það er fljótlegt að búa til þessa nautahakksrúllu og svo er henni bara skellt inn í ofn.

Mér finnst svoleiðis matur alltaf svo þægilegur, þá getur maður gengið frá í eldhúsinu eða gert eitthvað annað á meðan maturinn eldast.

Sósan er frábærlega góð, það má alls ekki sleppa henni. Svo er hægt að leika sér með innihaldið í rúllunni, nota til dæmis rifinn piparost, fetaost eða gráðost í stað venjulegs ostar. Það er líka hægt að nota annað grænmeti líkt og papriku, lauk og/eða sveppi og ekki er verra að bæta við beikoni.

Það er ákaflega einfalt að aðlaga nautahakksrúlluna með osti og brokkolí að LKL – lágkolvetna mataræðinu – og ég setti leiðbeiningar hvernig fara á að því inn í uppskriftina.

Fyrir LKL fólk væri sniðugt að bera fram með rúllunni til dæmis blómkálshrísgrjón.

Þau eru gerð með því að rífa niður blómkál (ekki stilkana, bara blómin) á grófu rifjárni. Það er svo sett út í sjóðandi vatn sem er saltað (vatnið á rétt að fljóta yfir þau) í 3 mínútur.

Það þarf svo að láta leka vel af blómkálshrísgrjónunum. Þau eiga að verða alveg vatnslaus, áður en þau eru borin fram.

Það er hægt að gera stóran skammt og geyma í ísskáp í nokkra daga.
Undirbúningstími: 5 mín.
Eldunartími: 40 - 50 mín.
Fyrir: Fyrir 4

Uppruni uppskriftar: Eldhússögur.com